Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Á tónleikum

Það er annarleg klípa sem ég lendi í þegar mig langar til að gagnrýna það lánsama fólk sem hefur kost á því að fara á tónleika meða mikilsmetnum tónlistarmönnum. Það er m.ö.o. sorglegt að horfa á sjóræningjaútgáfur (YouTube) af tónleikum þar sem varla sést í sviðið sökum ljóslifandi símaskjáa tónleikagesta.

Sorglegt en satt! Þegar maður elur manninn á eyju sem er svo fráhrindandi að ekki einu sinni glysrokksveitin Poison sá tilgang í að mæta hingað, finnst manni 200 mílna landhelgin aftur verða 2 mílna; steinhúsin verða að torfkofum; og Íslendingar að vannærðum kaupleigubóndum. En samt sem áður finnur maður fyrir ríkri réttlætiskennd til þess að gagnrýna fólk sem fer á tónleika til þess eins að missa af þeim.

Myndi ég einhverntíma eyða tíma mínum í að taka upp merkilega tónleika í stað þess að verja tíma mínum með öðrum tónleikagestum og njóta þeirra? Nei ekki ég. Hef farið á nógu marga tónleika hérlendis, sem tónlistamenn hafa aumkað sig yfir mélétandi almúgann, og notið þess að sjá og upplifa það sem maður annars hefur bara heyrt um eða lesið. Það gerir mér samt sem áður ekki ókleift að gagnrýna þá nýlundu að þurfa taka allt upp sem fram fer. Fyrir hvern og kannski öllu heldur af hverju?

Ruslupptökurnar sem maður hefur, skömmustulega, samt sem áður horft á lýsa frekar örvæntingu eða geðveiki en raunverulegri þörf á að sjá það sem aðrir sökum aðstæðna eða atorku gátu. Það er engu líkara en að hið sjónræna sé hinu lesna eða heyrða svo miklu æðra að enginn sé maður meðal manna nema hann geti sagt sömu sögu og allir ætlaðir eða raunverulegir. 

E.t.v. er það frá sjónarhóli tónlistarmannanna sjálfra sem þetta er skrifað, óskhyggja þess sem aldrei varð tónlistarmaður? En engu að síður þá hljóta það að vera býsna ömurleg viðbrögð við listsköpun þinni að horfa framan í stilltan múginn með síma á lofti, of upptekinn til þess að átta sig á ástæðunni af hverju að heiman var farið.

Eflaust er aðdáunin orðin svo mikil að ekki gefst tími til hennar? Hver veit? Kannski erum við bara svona vel innrætt að við viljum að sem flestir fái að njóta þess sama og við?

...Þá erum við örugglega komin á æðra plan en bjartsýnasta fólk þorði að vona!

Ef hugleiðingin hefði einhverja tilvísun í eyjunni fálátu en þakklátu þá væri hér um tímamót að ræða. En þar sem við erum jafn smá og við erum fá, þannig eru hugleiðingar okkar um það sem betur má fara jafn týndar og virðing tónleikagesta á þeim tónleikum þar sem virðingar er "eðlilega" krafist.


Gömul löggufærsla

Er ég skrítin að viðurkenna að umfjöllun Kastljóss um aðgerðir lögreglu undanfarið fylli mig öryggi? Er ég þá kominn í mótsögn við sjálfan mig ef ég segi að nýjasta hugarfóstur Björns Bjarnasonar fylli mig óöryggi? Er 240 manna launað varalið löggæslumanna og -kvenna lausnin á hvaða vandamáli? Ég bara spyr eins og sá sem ekkert veit? Hvað á þetta fólk að fá í laun fyrir að vera á vakt? En bakvakt? Er ég að fara borga þessi laun? Get ég gengið í þessa sveit? Þarf ég að fara á námskeið (ft)? Eru þau greidd og fæ ég þá greitt meðan ég er á þeim?

Nei það er ekki skrítið að dáðst að störfum lögreglunnar undanfarið, hún hefur að vísu verið markaðsett eins og um kosningabaráttu væri að ræða; Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins gengur um götur borgarinnar og handtekur stúta á milli þess sem hann líður kvalir fyrir okkur með því að láta sprauta framan í sig mase-úða. Örlar fyrir smá brosi og jafnvel örlitlum kjánahrolli þegar ég hugsa um það en hann hefur a.m.k. metnað fyrir því sem hann er að gera. Hann vill sýna þeim sem efast um að lögregluþjónar séu eitthvað annað en einmitt það, -þjónar samfélagsins. Við getum leitað til þeirra og beðið um aðstoð, og ég fyrir mitt leyti hef alltaf mætt mjög vingjarnlegu viðmóti og hjálpsemi. Það kann reyndar að vera vegna þess að ég ber virðingu fyrir lögreglumönnum, -e.t.v. er þannig ekki mark á mér takandi? Veit ekki?

Mér hefur a.m.k. alltaf fundist þetta starf, úr fjarlægð (ég er ekki lögreglumaður), hvað skal segja...krefjandi. Já það hlýtur að vera krefjandi að hafa enga hugmynd um hvernig rætist úr vinnudeginum; hvort maður kemur að alvarlegu slysi, átökum, er svívirtur af borgara eða jafnvel laminn eða hvort maður stendur heiðursvörð, fær klapp á bakið eða er mældur út af aðdáunaraugum ungra barna. Þetta er a.m.k. ekki borðleggjandi vinnudagur á minn mælikvarða.

Það velst misjafn sauður í lögregluna, um það verður ekki deilt. Við höfum flest heyrt sögur af lögreglumönnum sem fóru út fyrir verksvið sitt eða ramma laganna. Hinsvegar þá getum við einnig flest vitnað til um að hafa unnið með misjöfnum sauð. Ég hef unnið með svo skapstyggum hrútum að mér var næst að halda þeim aðskildum frá okkur hinum. En ég hef líka unnið með ljúfum lömbun og forystusauðum. Ég hef unnið með allskyns fólki úr öllum áttum og það sem ég hef lært er að taka fólki eins og það er og gera kröfur til þess í því samhengi. Þar með er ekki sagt að ég sætti mig við alvarlega lesti í fari þess, en ég geri mér grein fyrir því að ekki verður öllum breytt, ekki verða allir bættir. Manneðlið (sem við heimspekingar viðurkennum ekki alltaf) er síbreytilegt og því ber að taka hverjum og einum eins og hann kemur til dyrana hverju sinni og vinna út frá því.

Ég hef mótmælt, ekki oft en nógu oft til þess að hafa staðið frammi fyrir lögreglumönnum við skyldustörf í nokkur skipti. Það sem ég hef tekið eftir er að hvorki ég né lögreglumaðurinn vitum hvernig við eigum og megum haga okkur við þær aðstæður. Ég hef horft upp á aðra mótmælendur fara yfir strikið gegn laganna vörðum og ég hef orðið vitni af óþarfa valdbeitingu þeirra. Samt stend ég sjálfan mig að því að finna til með lögreglumanninum og það e.t.v. út af því að ég sé hann fyrst og fremst sem MANNESKJU í vinnunni en síðan sem verndara óréttláts málstaðar. Miðað við hvernig ég er innréttaður þá veit ég reyndar ekki hversu hátt ég þyrfti að leita þar til ég fyndi einhvern sem mér fyndist nógu "ómannlegur" til þess að axla ábyrgð gjörða sinna/þeirra. Segir e.t.v. meira um mig en þá...

Get samt ekki annað en látið hug fygja máli og rétt þeim þá smávægilegu hjálparhönd sem ég sé aflögu og virt vinnu þeirra í okkar þágu. Og þanngað til þeir fara yfir strikið þá stend ég með þeim, staðfastur!

 


Strákarnir okkar.

Stóð sjálfan mig að því að brosa að öllu sem strákarnir okkar, Jón Ásgeir og Björgúlfur Thor sögðu í Kastljósinu í kvöld. Þeir voru bara eitthvað svo frábærir, fullkomnir. Þeir gera allt svo auðvelt. Ég get ekki séð að ég þurfi annað en dirfsku og strásalt af skynsemi til þess að ná jafnlangt, og skynseminni er örugglega gert of hátt undir höfði í sambandinu. Þetta ER ekkert mál!

Ó hvað þeir eru alþýðlegir! Þeir tala til okkar á mannamáli út af því að þeir eru ALVEG eins og við! Voru í sama skóla og við og gera jafn lítið úr menntun og við gerum því AUÐVITAÐ þarftu ekki að mennta þig til þess að ná jafn langt, þú hefur aðra til þess. Það þarf aðeins að ráða menntað fólk í kringum þig og boltinn fer að rúlla, eins og Jón benti réttilega á. Ég öfunda þá ekki af ofangreindum ástæðum, ég get þetta alveg eins og þeir, þarf bara að láta vaða. Þeir eru strákarnir okkar því þeir valda okkur ekki vonbrigðum.

Einnig fannst mér eftirtektavert að sjá að fyrir það fyrsta þá var Jón Ásgeir ekki einn í viðtali heldur með Magnúsi Scheving, og svo hitt að þegar viðtali Björgúlfs lauk þá stóð hann upp "med det samme" og hélt á vit ævintýranna. Þannig sáum við e.t.v. hvað skilur þá tvo að,  -af hverju Björgúlfur þénar 100 miljörðum meira en Jón. Það þýðir lítið að slaka á eða slá af, alltaf að vera á tánum! Alveg eins og strákarnir okkar.

Lærdómurinn er þá e.t.v. sá að við getum öll orðið moldrík og fullkomin ef við aðeins leggjum okkur fram. En það er ekki nóg að vilja, það þarf að gera. Það þarf að vilja meira en hinn! Og það er það sem skilur Björgúlf frá Jóni, - Björgúlfur stóð upp, Jón sat.


Ræna og rupla!

Sorglegt en viðvarandi. Það er komið inn í huga ungs fólks í dag að rán í búðum sé spennandi, afsakanlegt, fyndið. Það er einmitt fyndið sem rekur fólk til þess að ræna búð, vopnað. Orðræðan getur merkt það fyndið, getur gefið því titilinn fyndið og spennandi. Spennandi!

 Já það er spennandi að taka þátt í ráni, vera handtekinn, yfirheyrður, og lokaður inni, hvort heldur maður er strákur eða stúlka. Vandamálið er einmitt þetta; það eitt að komast að er spennandi! Það veitir vissulega góða líðan en það er fyrst og fremst eitthvað sem hægt er að lifa af. Jafnvel lengi.

Kæruleysið er ekki lengur afsökun heldur ástæða. Við viljum brjóta og við viljum nást! Það skapar okkur sérstöðu. A.m.k. nú um sinn. Við verðum auðvtað eins og allir aðrir í augum lesandans, eins og Össur S þegar hann skrifar fullur um miðja nótt...

góða nótt!


Guns and Roses

hugsa sér að það eru um tuttugu ár síðan...

http://www.youtube.com/watch?v=c7xQ04nlePM


Ertu óákveðin(n)?

Ég velti því fyrir mér hvað við erum að kjósa yfir okkur næstkomandi laugardag, við erum jú beinlínis að kjósa einhverja YFIR okkur. Erum við að kjósa fólk inn eða fólk út? Segjum sem svo að við aðhyllumst ekki einn flokk frekar en annan, að við séum svona temmilega áhugasöm um hvað gerist í steinhúsinum við Austurvöll og að hvað svo sem kann að breytast þar sé verkefni sem við vinnum úr næstu fjögur árin. Erum við þá óákveðin (í pólitískum skilningi) eða erum við áhugalaus? Er merkjanlegur munur á þessu tvennu?

Ef við erum óákveðin bendir það til þess að við eigum erfitt með (eða jafnvel bara eftir að) gera upp á milli gefinna valkosta. Ef við erum hinsvegar áhugalaus þá má leiða að því líkur að við látum eitthvað í aðdraganda kosninganna, eitthvað í fari frambjóðendanna eða stefnu flokkanna fara í taugarnar á okkur. Og af þeim sökum neitum að taka þátt í fárinu (okkar orð) fyrir kosningadag. Þetta er einföld yfirborðsleg tvískipting.

Annað sem segja má um óákveðna er að þeir eru nýjungagjarnir og djarfir. Þeir kjósa ekki alltaf það sama og það af ólíkum ástæðum; þeim kann að mislíka eitthvað hjá einum eða einfaldlega hrífast meira af öðrum; e.t.v. kjósa þeir gott fólk þrátt fyrir vondan flokk eða góðan flokk þrátt fyrir svartan sauð; þeir kunna líka að vilja breytingar og því kjósa þeir nýjan bókstaf; o.s.frv. Djörfungin felst í öllu framantöldu því hinn óákveðni, sem gleymum því ekki var í okkar tilviki temmilega áhugasamur um stjórnmál, kýs og hann kýs óbundinn.

Ég tók ekki mikinn þátt í hópíþróttum þegar ég var yngri og það mun væntanlega ekki breytast. Ég hef þar af leiðandi svo til aldrei tilheyrt liði eða liðsheild. Þetta eitt hefur haft töluverð áhrif á keppnisskap mitt. Þá tilfinningu þekki ég ekki vel og af þeim sökum þyki ég hvorki skemmtilegur félagi í íþróttum né spilum. Ég gleðst yfir því sem vel er gert og læt það í ljós, hvort sem það er hjá mótherja eða samherja. Eins og gefur að skilja þá er gremja samherja minna við slík tækifæri mikil. Ég hinsvegar get bara ekki annað.

Má þá draga þá ályktun að ég sé óákveðinn? Já og nei. Ég hef legið á skoðunum mínum í gegnum tíðina en þar með er ekki sagt að ég hafi verið temmilega áhugasamur um þátttöku í stjórnmálaumræðunum, ég hef bara ekki fundið þörf til að bera þær á torg, enda aldrei áður verið í hringiðu stjórnmálanna. Þess utan hefur atkvæði mitt í hvert það skipti sem ég hef kosið staðið jafnt öðrum (ég veit ekki til þess að atkvæði hinna blóðheitu og hinna áhugalitlu komi öðruvísi upp úr kjörkössunum...það er m.ö.o. ekki hægt að greiða atkvæði með stæl. Væri samt fyndið ef svo væri). 

Nú er svo komið að ég HEF fundið skoðunum mínum farveg og ég ER orðinn þátttakandi í kosningabaráttu. Og það sem e.t.v. mestum tíðindum sætir í ljósi þess sem að ofan stendur, að ég er orðinn hluti af liðsheild. Sú tilfinning sem ég áður þekkti ekki er barasta furðu góð. Gleðitímar! En þá hlýtur einhver að rifja upp keppnisskapið...æi já ég verð að hafa keppnisskap ef ég ætla að standa mig í baráttunni og njóta virðingar félaga minna. Vandast málið. Þegar ég hugsa út í það þá hef ég nú stundum setið agndofa yfir tilfinningahita félaga minna. Líkast til eins og ég gerði forðum daga þegar ég sat á varamannabekk andstæðinga minna í körfubolta og hvatti þá til að gefast ekki upp þó þeir fengju ekki tækifæri.

Nei einsleitni einkennir ekki góðan flokk, það er eins og að hygla skoðanaleysi, einn flokkur ein rödd - hvað þýðir það eiginlega annað. Ólíkar skapgerðir rúmast innan eins og sama flokksins, það má sjá á flestum af þeim flokkum sem nú bjóða fram. Þetta er lykillinn að nýliðun. Það sem hinsvegar skilur flokkana að er hvernig þeim reiðir af innan þeirra sem tala ekki alltaf með því sem meirihlutinn vill.

Og hvað er ég að reyna segja, jú það er tvennt. Í fyrsta lagi þá eru kosningar ekkert gamanmál þó stjórnmálamenn geti vissulega verið gamansamir. Hvaða skoðun við svo sem kunnum að hafa á stjórnmálaflokkum, stjórnmálamönnum og/eða kosningabaráttu yfir höfuð, þá skiptir máli að kjósa því þátttakan mælir raunverulegan vilja þjóðarinnar. Við eigum ekki að láta ferlið sjálft pirra okkur svo mikið að við verðum afhuga því að kjósa. Hvort sem við höfum skoðun á því hvernig þjóðarskútunni er siglt eða ekki þá eru til atkvæðaseðlar fyrir alla og þú ræður hvort þú skilar honum merktum eða ekki, það er afstaða. Þeir sem skila auðu eru meira að segja mældir, þeir fá sína súlu á skjáinn á kosninganótt, sína eigin súlu!

Í öðru lagi þá trúi ég því að við höfum öll skoðanir. Hvort sem við teljum okkur hafa það gott eða slæmt þá hugsum við um aðstæður okkar, það er að vera mannlegur. Ef við höfum það slæmt þá liggur beinast við að spyrja sig af hverju það sé og hvort við getum kosið okkur betri framtíð. Ef við höfum það hinsvegar gott og unum hag okkar vel þá væri e.t.v. ráð að leyfa sér þann munað að líta í kringum sig, hvort heldur innan eigin fjölskyldu eða vina og kunningja og sjá hvort öllum hafi reitt jafnvel af og þér. Ef svo er þá get ég fullvissað þig um að þú hafir það of gott.

Ég hef það gott og kvarta ekki undan neinu en í kringum mig sé ég fólk sem orðið hefur útundan, fólk sem hefur gleymst. Og það er ekki að litlu leyti fyrir það sem ég kýs 12. maí. 

Sjálfur kýs ég VG, hvað kýst þú?


Mosfellsbær að kveldi 28. mars 2007

Ofbeldi birtist í ólíkum myndum, á ólíku sviði og er beitt af ólíklegasta fólki. Einelti er ein birtingarmyndin, yfirgangur önnur og hópþrýstingur þá sú þriðja. Myndirnar eru fleiri en þessar en í kvöld herjaði þessi þrenning á lítinn hóp fólks sem varla gat varist árás og annan hóp fólks sem ekki var undir það búinn. Málstaðurinn var e.t.v. góður og gildur en vettvangurinn ekki. Það var líkt og á staðnum væru sjónvarpsmyndavélar (sem ekki voru) og að þetta eina kvöld ætti að láta kné fylgja kviði og gera málstaðinn öllum kunnugan og það sem meira er að láta einhvern blæða fyrir öll vonbrigðin.

Hvernig er hægt að aðhyllast góðan málstað, tala af skynsemi en beina sjónum sínum í kolranga átt? Er það ekki eins og að slá til næsta manns þegar okkur finnst eitthvað pirra okkur? Eða sparka í liggjandi mann vegna þess að sá sem við teljum að eigi það skilið er hvergi nærri? Á ég enn einu sinni að finna til með fólki sem þessu og segja sem svo að tilfinningarnar hafi borið það ofurliði, að þegar öllu sé á botninn hvolft þá eigi ekki að dæma fólk sem hleypur á sig? Freistandi, þar sem ég tel mig framúr öllu góðu hófi umburðarlyndan og réttsýnan mann, en ekki í þetta skiptið!

Þegar fólk sér ekki lengra en fram á hlaðið, kannski niður á veg, þá er erfitt að skilja gremju þess. Þ.e. sérhagsmunir og heildarmynd skjóta upp kollinum. Hvað sem öðru líður þá gerum við kröfur til þess að fólk fylgi ákveðnum rökum og reglum ef það vill láta taka sig alvarlega og fá fleira fólk á sitt band, -er málstaðurinn góður (réttur?) ef nógu margir aðhyllast hann eða af því að þeir gera það af ástæðum sem standast rök? Kannski er ég að bregðast við á röngum forsendum, á röngum tíma. E.t.v. á ég að sitja á mér og skrifa á morgun þegar mér er runnin reiðin...hneykslunin? Ég gat ekki orða bundist í kvöld en sagði samt ekki neitt...stenst ekki rök en lýsir tilfinningum. Þeir sem ég gagnrýni skilja mig ekki en hinir sem voru þarna í kvöld vita kannski hvert ég er að fara. Ég leyfi þeim fáu að meta það.

Mér er a.m.k. ögn létt.


Spurn?

Er ég þessi Jón? Mér skilst að bloggurum hér á blog.is hafi fjölgað skuggalega undanfarið; að nú sé bloggað um allt af öllum. Það var eitthvernstaðar sem ég las að til væru síur sem losuðu okkur undan því að sóa tíma okkar á óáhugaverðum bloggsíðum. Tími kominn til segi ég, en að sama skapi þá hlýtur lesendum mínum að fækka töluvert...

Ég skil ekki almennilega af hverju fólk bloggar, hvað þá síður af hverju ég blogga. Er ég að reyna búa til einhvernskonar alter-ego? Eða er ég að reyna fegra þann mann sem ég hef að geyma, reyna virka gáfaðari en ég er? (mér finnst ég reyndar alveg nógu gáfaður, innskt. ritstj.) Er það hégóminn einn? Er ég að reyna sjálfan mig? Finnst mér ég hafa frá einhverju að segja? Hafa ekki allir frá einhverju að segja? Hefur einhver áhuga á öllu sem einhverjir hafa frá að segja? Hvað eru þeir að segja; eru þeir að ljóstra einhverju upp um sjálfa sig, um aðra eða eru þeir að tjá sig um allt sem einhverjir hafa frá að segja? Skiljum við yfirhöfuð hvað við skrifum? Man einhver af hverju hann skrifaði eitt frekar en annað? Heldur sá hinn sami að einhver annar muni eftir því seinna meir? Kannski og kannski, en er það þá ekki eins og eftirminnileg blaðagrein? Er blogg dagblað? Fær einhver greitt fyrir bloggið sitt? Eða er þetta svona frídagblað, fríblogg? Þurfum við ekki frí frá þessu.

...sonur minn vill a.m.k. að ég taki mér frí frá skriftum og komi að leika, hann skilur ekki hvernig pabbi hans geti eytt tíma sínum fyrir framan tölvu á laugardagsmorgni frekar en að verja tímanum með honum. Ég er að koma...

 


Að hvetja eða letja?

Það sætir furðu að stjórnmálamenn bregðist svo varfærnislega við hugmyndum Lýðheilsustöðvar þess efnis að e.t.v ætti ekki breyta virðisaukaálögum á gosdrykki (og í raun marga ávaxtasafa einnig). Það ætti að vera hverjum manni ljóst hversu slæm áhrif of mikil gosdrykkja getur haft á hvorttveggja tennur og líkamsbyggingu. Það sama má í raun segja um suma ávaxtasafa því sykurmagn er ekki ósvipað og í gosdrykkjum.

Við getum lagt til hliðar frjálshyggjuviðhorf hægrimanna enda virðist vera þverpólitísk andstaða OG samstaða í þessu máli. Að því undanskildu að ég held að Vinstri Græn standi nokkuð þétt að baki þeirri tillögu að breyta ekki sköttum á gosi og ávaxtadrykki. Það sem hinsvegar vekur furðu er að á slíkum heilsuverndar vakningartímum sem við nú lifum skuli fólk ekki vera tilbúið að beita sér af meiri krafti. Áherslan á "vernd" í heilsuvernd þarf ekki að túlka sem forsjárhyggju í neikvæðri merkingu þess orðs, heldur hitt að af fenginni reynslu þá horfum við á neyslu vara sem skilgreindar eru óhollar aukast. Að vísu er allt gott í hófi, það var mér a.m.k. kennt, en nú er svo komið að neysla þessara vara er svo mikil að gott hóf er fyrir löngu gleymt og grafið.

Sú var tíðin að gosdrykkir og ávaxtasafar voru munaðarvara, þ.e. að verlagning þeirra var slík að þær voru ekki á boðstólum nema tilefni gæfi til; afmæli, veislur etc.. A.m.k. tel ég það ástæðuna, - getur verið að foreldrar mínir hafi bara verið svona framsýnir?  Ég drakk mjólk og ég drakk vatn (ekki kolsýrt, nema þá einhver átti sódastream vél...og bragðefni). Sannast hið fornkveðna að á eftir banni kemur löngun. Það sem mig rekur minni til að gerðist var að framleiðendur fóru að selja gosdrykki í stærri umbúðum en samt á svipuðu verði. Þ.e. að allt í einu litu gosdrykkir ekki út fyrir að vera munaðarvara, þú gast fengið svo mikið magn fyrir tiltölulega lítið verð. Það var hægt að fá gos í tveimur stærðum glerflaskna, í dós, í hálfslítra- , einum og hálfum- og tveggja lítra plastumbúðum. Lítra umbúðir og Súperdós(Gasp) komu seinna. Og framhaldið er horfin saga, eins og máltakið segir.

Málið er að gosdrykkir voru lengi framan af sveipaðir ákveðnum dýrðarljóma, þeir voru spennandi, nýjir og sameinuðu fólk, já sameinuðu! Hver man ekki eftir jólaauglýsingunni, pýramídanum, ,,I'd like to buy the world some hope and furnish it with love..." eða var það coke? Man það ekki, en ég man að þetta var boðberi Jólanna, já þegar auglýsingin birtist á skjánum þá voru Jólin komin, ekki þegar Ellý og Villi sungu um Jólin heldur þegar pýramídakórinn söng um það hvernig kók sameinar og bjargar. Man ekki eftir gagnrýnisröddum þá, hvar eru þær nú?

Ég ætla svo sem ekki að kenna gosframleiðendum um hvernig komið er fyrir börnum sem þjást af offitu og tannskemmdum, frekar en ég ætla að kenna tóbaksframleiðendum um allt það fólk sem þjáist af krabbameini. Nei mig langaði einungis að benda á þá einföldu staðreynd að það er ekkert sérstakt við gos - í alvöru! Það er ekkert sérstakt við gos! Ánægjan sem því fylgir að klára tvo lítra af gosi á dag er ekki líkamleg, hún er andleg. Það er eitthvað sem fær okkur til að hugsa þegar við stöndum frammi fyrir vatnsglasi eða gosglasi...eða er það e.t.v. eitthvað sem fælir okkur frá því að hugsa?

Allt er gott í hófi, minntist á það hér að ofan. En þegar sérfræðingar stofnunnar sem stjórnvöld komu á legg ráðleggja okkur að drekka minna gos, heilsu okkar og tanna vegna, þá ákveða þessi sömu stjórnvöld að lækka skatta á þessar sömu vörur. Og hvað gerist þegar við getum fengið tvær flöskur til viðbótar við kippuna sem við erum vön að kaupa?


Hví ekki?

Tjáning er birting og hví ekki að birtast. Ekki hefur sól mín skinið skært hingað til. En e.t.v. er bót í máli að birtast á skjám landsmanna, þ.e. tölvuskjám, og láta ljós mitt skína, - ég hlýt að hafa frá meiru að segja en hinir Jónarnir. Og þó, ég held það bara.

En hér er ég a.m.k. og læt af mér og í mér heyra við tækifæri.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband