Ertu óákveðin(n)?

Ég velti því fyrir mér hvað við erum að kjósa yfir okkur næstkomandi laugardag, við erum jú beinlínis að kjósa einhverja YFIR okkur. Erum við að kjósa fólk inn eða fólk út? Segjum sem svo að við aðhyllumst ekki einn flokk frekar en annan, að við séum svona temmilega áhugasöm um hvað gerist í steinhúsinum við Austurvöll og að hvað svo sem kann að breytast þar sé verkefni sem við vinnum úr næstu fjögur árin. Erum við þá óákveðin (í pólitískum skilningi) eða erum við áhugalaus? Er merkjanlegur munur á þessu tvennu?

Ef við erum óákveðin bendir það til þess að við eigum erfitt með (eða jafnvel bara eftir að) gera upp á milli gefinna valkosta. Ef við erum hinsvegar áhugalaus þá má leiða að því líkur að við látum eitthvað í aðdraganda kosninganna, eitthvað í fari frambjóðendanna eða stefnu flokkanna fara í taugarnar á okkur. Og af þeim sökum neitum að taka þátt í fárinu (okkar orð) fyrir kosningadag. Þetta er einföld yfirborðsleg tvískipting.

Annað sem segja má um óákveðna er að þeir eru nýjungagjarnir og djarfir. Þeir kjósa ekki alltaf það sama og það af ólíkum ástæðum; þeim kann að mislíka eitthvað hjá einum eða einfaldlega hrífast meira af öðrum; e.t.v. kjósa þeir gott fólk þrátt fyrir vondan flokk eða góðan flokk þrátt fyrir svartan sauð; þeir kunna líka að vilja breytingar og því kjósa þeir nýjan bókstaf; o.s.frv. Djörfungin felst í öllu framantöldu því hinn óákveðni, sem gleymum því ekki var í okkar tilviki temmilega áhugasamur um stjórnmál, kýs og hann kýs óbundinn.

Ég tók ekki mikinn þátt í hópíþróttum þegar ég var yngri og það mun væntanlega ekki breytast. Ég hef þar af leiðandi svo til aldrei tilheyrt liði eða liðsheild. Þetta eitt hefur haft töluverð áhrif á keppnisskap mitt. Þá tilfinningu þekki ég ekki vel og af þeim sökum þyki ég hvorki skemmtilegur félagi í íþróttum né spilum. Ég gleðst yfir því sem vel er gert og læt það í ljós, hvort sem það er hjá mótherja eða samherja. Eins og gefur að skilja þá er gremja samherja minna við slík tækifæri mikil. Ég hinsvegar get bara ekki annað.

Má þá draga þá ályktun að ég sé óákveðinn? Já og nei. Ég hef legið á skoðunum mínum í gegnum tíðina en þar með er ekki sagt að ég hafi verið temmilega áhugasamur um þátttöku í stjórnmálaumræðunum, ég hef bara ekki fundið þörf til að bera þær á torg, enda aldrei áður verið í hringiðu stjórnmálanna. Þess utan hefur atkvæði mitt í hvert það skipti sem ég hef kosið staðið jafnt öðrum (ég veit ekki til þess að atkvæði hinna blóðheitu og hinna áhugalitlu komi öðruvísi upp úr kjörkössunum...það er m.ö.o. ekki hægt að greiða atkvæði með stæl. Væri samt fyndið ef svo væri). 

Nú er svo komið að ég HEF fundið skoðunum mínum farveg og ég ER orðinn þátttakandi í kosningabaráttu. Og það sem e.t.v. mestum tíðindum sætir í ljósi þess sem að ofan stendur, að ég er orðinn hluti af liðsheild. Sú tilfinning sem ég áður þekkti ekki er barasta furðu góð. Gleðitímar! En þá hlýtur einhver að rifja upp keppnisskapið...æi já ég verð að hafa keppnisskap ef ég ætla að standa mig í baráttunni og njóta virðingar félaga minna. Vandast málið. Þegar ég hugsa út í það þá hef ég nú stundum setið agndofa yfir tilfinningahita félaga minna. Líkast til eins og ég gerði forðum daga þegar ég sat á varamannabekk andstæðinga minna í körfubolta og hvatti þá til að gefast ekki upp þó þeir fengju ekki tækifæri.

Nei einsleitni einkennir ekki góðan flokk, það er eins og að hygla skoðanaleysi, einn flokkur ein rödd - hvað þýðir það eiginlega annað. Ólíkar skapgerðir rúmast innan eins og sama flokksins, það má sjá á flestum af þeim flokkum sem nú bjóða fram. Þetta er lykillinn að nýliðun. Það sem hinsvegar skilur flokkana að er hvernig þeim reiðir af innan þeirra sem tala ekki alltaf með því sem meirihlutinn vill.

Og hvað er ég að reyna segja, jú það er tvennt. Í fyrsta lagi þá eru kosningar ekkert gamanmál þó stjórnmálamenn geti vissulega verið gamansamir. Hvaða skoðun við svo sem kunnum að hafa á stjórnmálaflokkum, stjórnmálamönnum og/eða kosningabaráttu yfir höfuð, þá skiptir máli að kjósa því þátttakan mælir raunverulegan vilja þjóðarinnar. Við eigum ekki að láta ferlið sjálft pirra okkur svo mikið að við verðum afhuga því að kjósa. Hvort sem við höfum skoðun á því hvernig þjóðarskútunni er siglt eða ekki þá eru til atkvæðaseðlar fyrir alla og þú ræður hvort þú skilar honum merktum eða ekki, það er afstaða. Þeir sem skila auðu eru meira að segja mældir, þeir fá sína súlu á skjáinn á kosninganótt, sína eigin súlu!

Í öðru lagi þá trúi ég því að við höfum öll skoðanir. Hvort sem við teljum okkur hafa það gott eða slæmt þá hugsum við um aðstæður okkar, það er að vera mannlegur. Ef við höfum það slæmt þá liggur beinast við að spyrja sig af hverju það sé og hvort við getum kosið okkur betri framtíð. Ef við höfum það hinsvegar gott og unum hag okkar vel þá væri e.t.v. ráð að leyfa sér þann munað að líta í kringum sig, hvort heldur innan eigin fjölskyldu eða vina og kunningja og sjá hvort öllum hafi reitt jafnvel af og þér. Ef svo er þá get ég fullvissað þig um að þú hafir það of gott.

Ég hef það gott og kvarta ekki undan neinu en í kringum mig sé ég fólk sem orðið hefur útundan, fólk sem hefur gleymst. Og það er ekki að litlu leyti fyrir það sem ég kýs 12. maí. 

Sjálfur kýs ég VG, hvað kýst þú?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

FRÁBÆR LESNING

Valla (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 22:42

2 identicon

Takk f. þessi skrif Alexander minn - þetta er góð  hugleiðing.

Kv.  Sigga

Sigríður Árnadóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 11:08

3 identicon

Góð grein hjá þér Alex.  Gott að velta þessu fyrir sér, ekki seinna vænna.  Var einnig hrifin af hugleiðingu þinni um gosdrykkina - erum greinilega á sömu skoðun þar :)

Alma María Rögnvaldsdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband