Á tónleikum

Það er annarleg klípa sem ég lendi í þegar mig langar til að gagnrýna það lánsama fólk sem hefur kost á því að fara á tónleika meða mikilsmetnum tónlistarmönnum. Það er m.ö.o. sorglegt að horfa á sjóræningjaútgáfur (YouTube) af tónleikum þar sem varla sést í sviðið sökum ljóslifandi símaskjáa tónleikagesta.

Sorglegt en satt! Þegar maður elur manninn á eyju sem er svo fráhrindandi að ekki einu sinni glysrokksveitin Poison sá tilgang í að mæta hingað, finnst manni 200 mílna landhelgin aftur verða 2 mílna; steinhúsin verða að torfkofum; og Íslendingar að vannærðum kaupleigubóndum. En samt sem áður finnur maður fyrir ríkri réttlætiskennd til þess að gagnrýna fólk sem fer á tónleika til þess eins að missa af þeim.

Myndi ég einhverntíma eyða tíma mínum í að taka upp merkilega tónleika í stað þess að verja tíma mínum með öðrum tónleikagestum og njóta þeirra? Nei ekki ég. Hef farið á nógu marga tónleika hérlendis, sem tónlistamenn hafa aumkað sig yfir mélétandi almúgann, og notið þess að sjá og upplifa það sem maður annars hefur bara heyrt um eða lesið. Það gerir mér samt sem áður ekki ókleift að gagnrýna þá nýlundu að þurfa taka allt upp sem fram fer. Fyrir hvern og kannski öllu heldur af hverju?

Ruslupptökurnar sem maður hefur, skömmustulega, samt sem áður horft á lýsa frekar örvæntingu eða geðveiki en raunverulegri þörf á að sjá það sem aðrir sökum aðstæðna eða atorku gátu. Það er engu líkara en að hið sjónræna sé hinu lesna eða heyrða svo miklu æðra að enginn sé maður meðal manna nema hann geti sagt sömu sögu og allir ætlaðir eða raunverulegir. 

E.t.v. er það frá sjónarhóli tónlistarmannanna sjálfra sem þetta er skrifað, óskhyggja þess sem aldrei varð tónlistarmaður? En engu að síður þá hljóta það að vera býsna ömurleg viðbrögð við listsköpun þinni að horfa framan í stilltan múginn með síma á lofti, of upptekinn til þess að átta sig á ástæðunni af hverju að heiman var farið.

Eflaust er aðdáunin orðin svo mikil að ekki gefst tími til hennar? Hver veit? Kannski erum við bara svona vel innrætt að við viljum að sem flestir fái að njóta þess sama og við?

...Þá erum við örugglega komin á æðra plan en bjartsýnasta fólk þorði að vona!

Ef hugleiðingin hefði einhverja tilvísun í eyjunni fálátu en þakklátu þá væri hér um tímamót að ræða. En þar sem við erum jafn smá og við erum fá, þannig eru hugleiðingar okkar um það sem betur má fara jafn týndar og virðing tónleikagesta á þeim tónleikum þar sem virðingar er "eðlilega" krafist.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband