Gömul löggufærsla

Er ég skrítin að viðurkenna að umfjöllun Kastljóss um aðgerðir lögreglu undanfarið fylli mig öryggi? Er ég þá kominn í mótsögn við sjálfan mig ef ég segi að nýjasta hugarfóstur Björns Bjarnasonar fylli mig óöryggi? Er 240 manna launað varalið löggæslumanna og -kvenna lausnin á hvaða vandamáli? Ég bara spyr eins og sá sem ekkert veit? Hvað á þetta fólk að fá í laun fyrir að vera á vakt? En bakvakt? Er ég að fara borga þessi laun? Get ég gengið í þessa sveit? Þarf ég að fara á námskeið (ft)? Eru þau greidd og fæ ég þá greitt meðan ég er á þeim?

Nei það er ekki skrítið að dáðst að störfum lögreglunnar undanfarið, hún hefur að vísu verið markaðsett eins og um kosningabaráttu væri að ræða; Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins gengur um götur borgarinnar og handtekur stúta á milli þess sem hann líður kvalir fyrir okkur með því að láta sprauta framan í sig mase-úða. Örlar fyrir smá brosi og jafnvel örlitlum kjánahrolli þegar ég hugsa um það en hann hefur a.m.k. metnað fyrir því sem hann er að gera. Hann vill sýna þeim sem efast um að lögregluþjónar séu eitthvað annað en einmitt það, -þjónar samfélagsins. Við getum leitað til þeirra og beðið um aðstoð, og ég fyrir mitt leyti hef alltaf mætt mjög vingjarnlegu viðmóti og hjálpsemi. Það kann reyndar að vera vegna þess að ég ber virðingu fyrir lögreglumönnum, -e.t.v. er þannig ekki mark á mér takandi? Veit ekki?

Mér hefur a.m.k. alltaf fundist þetta starf, úr fjarlægð (ég er ekki lögreglumaður), hvað skal segja...krefjandi. Já það hlýtur að vera krefjandi að hafa enga hugmynd um hvernig rætist úr vinnudeginum; hvort maður kemur að alvarlegu slysi, átökum, er svívirtur af borgara eða jafnvel laminn eða hvort maður stendur heiðursvörð, fær klapp á bakið eða er mældur út af aðdáunaraugum ungra barna. Þetta er a.m.k. ekki borðleggjandi vinnudagur á minn mælikvarða.

Það velst misjafn sauður í lögregluna, um það verður ekki deilt. Við höfum flest heyrt sögur af lögreglumönnum sem fóru út fyrir verksvið sitt eða ramma laganna. Hinsvegar þá getum við einnig flest vitnað til um að hafa unnið með misjöfnum sauð. Ég hef unnið með svo skapstyggum hrútum að mér var næst að halda þeim aðskildum frá okkur hinum. En ég hef líka unnið með ljúfum lömbun og forystusauðum. Ég hef unnið með allskyns fólki úr öllum áttum og það sem ég hef lært er að taka fólki eins og það er og gera kröfur til þess í því samhengi. Þar með er ekki sagt að ég sætti mig við alvarlega lesti í fari þess, en ég geri mér grein fyrir því að ekki verður öllum breytt, ekki verða allir bættir. Manneðlið (sem við heimspekingar viðurkennum ekki alltaf) er síbreytilegt og því ber að taka hverjum og einum eins og hann kemur til dyrana hverju sinni og vinna út frá því.

Ég hef mótmælt, ekki oft en nógu oft til þess að hafa staðið frammi fyrir lögreglumönnum við skyldustörf í nokkur skipti. Það sem ég hef tekið eftir er að hvorki ég né lögreglumaðurinn vitum hvernig við eigum og megum haga okkur við þær aðstæður. Ég hef horft upp á aðra mótmælendur fara yfir strikið gegn laganna vörðum og ég hef orðið vitni af óþarfa valdbeitingu þeirra. Samt stend ég sjálfan mig að því að finna til með lögreglumanninum og það e.t.v. út af því að ég sé hann fyrst og fremst sem MANNESKJU í vinnunni en síðan sem verndara óréttláts málstaðar. Miðað við hvernig ég er innréttaður þá veit ég reyndar ekki hversu hátt ég þyrfti að leita þar til ég fyndi einhvern sem mér fyndist nógu "ómannlegur" til þess að axla ábyrgð gjörða sinna/þeirra. Segir e.t.v. meira um mig en þá...

Get samt ekki annað en látið hug fygja máli og rétt þeim þá smávægilegu hjálparhönd sem ég sé aflögu og virt vinnu þeirra í okkar þágu. Og þanngað til þeir fara yfir strikið þá stend ég með þeim, staðfastur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband